Um Verksmiðjuna

Verksmiðjan er nýsköpunarkeppni fyrir ungt fólk í 8.-10.bekk, þar sem hugmyndir og uppfinningar verða að veruleika.

Verksmiðjan hvetur ungt fólk til að taka eftir hugmyndum sínum og umhverfi og finna lausnir á ýmsum vandamálum, stórum sem smáum.

Svona er keppnisferli Verksmiðjunnar: 

– Þú sendir inn hugmynd hér á síðunni. Skilafrestur er til og með 7.febrúar 2019. 

– 30 hugmyndir eru valdar af dómnefnd og þróaðar áfram í glæsilegu Fab Lab smiðjunum. 

– 10 bestu hugmyndirnar eru valdar af dómnefnd í byrjun mars, þróaðar áfram í smiðjum Fab Lab og fá að tengjast fyrirtækjum í atvinnulífinu. 

– Hugmyndunum tíu verður gerð góð skil með innslögum á heimasíðu Verksmiðjunnar. 

– Sigurvegarinn er tilkynntur á lokahátíð Verksmiðjunnar 22.maí 2019. Einnig verða veitt sérstök umhverfisverðlaun og samfélagsverðlaun.  

Svona eru sjónvarpsþættirnir:

Þátttakendum er fylgt eftir og þeir myndaðir af framleiðsluteymi RÚV. Fimm sjónvarpsþættir um Verksmiðjuna, iðngreinar og nýsköpun verða sýndir á RÚV vorið 2019.

Tónlistarmaðurinn Daði Freyr Pétursson og leikkonan Berglind Alda Ástþórsdóttir verða andlit sjónvarpsþáttanna. Daði Freyr tekur einnig þátt í Verksmiðjunni og mun þróa hljóðfæri í samstarfi við Fab Lab.  Fylgst verður með ferlinu á ungruv.is og einnig í sjónvarpsþáttunum.

Svona varð Verksmiðjan til:

Upphaf Verksmiðjunnar má rekja til samstarfs nokkurra aðila sem settu verkefnið Kóðinn af stað árið 2017. Kóðinn er forritunarleikar fyrir krakka í 6. – 7.bekk þar sem krakkar tókust á við áskoranir sem tengdust tölvum, forritun, snjallsímum og fleiri forritunaráskoranir sem tengdust Micro:bit smátölvunni. Leikarnir fóru fram 2017 – 2018 og framleiddi RÚV sjónvarpsþætti sem fjölluðu um málefnið.  

Að Kóðanum stóðu Samtök iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Menntamálastofnun og RÚV.  

Þegar fyrstu umferð Kóðans lauk, bættust FabLab smiðjurnar í hópinn og ákveðið var að láta verkefnið stækka í umfangi og framkvæmd og taka iðngreinarnar inn í myndina og Verksmiðjan varð til. Allir samstarfsaðilar fundu mikinn samhljóm í tilgangi Verksmiðjunnar – að hvetja ungt fólk til nýsköpunnar og kynna iðngreinar á skapandi hátt.   

Verksmiðjan er nýsköpunarkeppni sem er vettvangur fyrir raddir ungmenna. Vettvangur þar sem hugmyndir þeirra geta orðið að veruleika. Markmiðið með verkefninu er að ungt fólk geti séð og upplifað að hugmyndir þeirra geta vaxið, þróast og orðið að veruleika og að hugmyndir þeirra skipta máli.  

Verkefnið er fyrst og fremst hvatning fyrir ungmenni til að veita hugmyndum sínum eftirtekt, því allir fá hugmyndir.   

Verksmiðjan er stórt samstarfsverkefni og að því standa:

Samtök Iðnaðarins

Nýsköpunarmiðstöð Íslands

Fab Lab á Íslandi

Nýsköpunarkeppni grunnskólanna

Menntamálaráðuneytið

RÚV

Rafmennt

Skema

Listasafn Reykjavíkur