Hvernig fæ ég hugmyndir?

Ein leið til þess að fá hugmyndir er einfaldlega að taka eftir því sem fer í taugarnar á þér. Er eitthvað í umhverfinu þínu og daglega lífi sem þarf að laga? Eða er eitthvað sem mundi virka svo miklu betur ef það væri búið til upp á nýtt? Er til dæmis of mikill hávaði í matsalnum? Troðningur í biðröðinni við strætó eða er óþægilegt að ganga til nýja skó? 

Staldraðu við og spurðu þig: Hvers vegna fer þetta í taugarnar á mér? Hvað vantar til að ástandið verði betra? Og hvernig er hægt að bregðast við?  

Prófaðu þetta: Gefðu þér fimm til tíu mínútur til að velta fyrir þér nokkrum atriðum sem fara í taugarnar á þér í daglegu lífi. Tíndu allt til. Bæði stór og smátt. Reyndu að finna eins mörg atriði og þú getur, eða að minnsta kosti fimmtán atriði. Veldu síðan þrjú atriði til að vinna með.  

Skrifaðu niður: 

  1. Atriði sem fara í taugarnar á mér: 
  1. Hvers vegna: 
  1. Hvar, hvernig og hvenær fór þetta í taugarnar á mér: 
  1. Hvaða þarfir þarf að uppfylla til að breyta þessari tilfinningu: 
  1. Hugmyndir að lausnum: 

 

Þessa æfingu er frábært að gera með vini þínum eða vinkonu. Jafnvel nokkrir saman í hóp. Finnið vandamálin og spjallið saman um hugmyndir að lausnum. Góðar hugmyndir fæðast oft af samvinnu. Láttu hugann reika og hlustaðu á hugmyndir hinna ef þú ert að gera æfinguna í hóp. Það gæti einhver snilldarhugmynd fæðst á meðan þið spjallið saman.