Hvað er nýsköpun?

Í fjölmiðlum, fréttunum og á hinum ýmsu stöðum er oft talað um nýsköpun og að nýsköpun sé mikilvæg fyrir atvinnulífið. Stundum er sagt að það sé mikil
nýsköpun í íslenskum fyrirtækjum og atvinnulífi og stundum er talað um að hún of lítil.  

En hvað þýðir eiginlega orðið nýsköpun og hvers vegna er hún svona mikilvæg? Á einfaldan hátt er hægt að segja að nýsköpun feli í sér að skapa eða búa til eitthvað nýtt – eða laga eitthvað og bæta sem er nú þegar til staðar.  

Þetta getur til dæmis átt við einhvern hlut, þjónustu, tækni eða aðferð sem er notuð í fyrirtæki. Orðið nýsköpun þýðir sem sagt að fá hugmynd og framkvæma  hana – það er ekki nóg að fá bara hugmynd. 

Hvað er þá svona mikilvægt við nýsköpun? Að hugsa skapandi og finna nýjar lausnir er mjög mikilvægt fyrir efnahagslíf heimsins. Nýsköpun skapar verðmæti  og getur aukið velgengni fyrirtækja í atvinnulífinu.  

Nýsköpun getur líka hreinlega bætt heiminn og komið með mikilvægar lausnir sem varða alla heimsbyggðina. Til dæmis nýsköpun í málefnum sem tengjast því hvernig fyrirtæki geta verið umhverfisvænni í framleiðslu.  

Nýsköpun er því gríðarlega mikilvæg fyrir framtíð okkar og samfélagsins sem við búum í og fleiri og fleiri fyrirtæki og einstaklingar leggja mikinn metnað í að  hugsa í skapandi lausnum.  

Nýsköpun og frumkvöðlafræði eru til dæmis kennd sem meistaranám í Háskólanum í Reykjavík.