Geta allir fengið hugmyndir?

Svarið er JÁ! Það er algengur misskilningur að aðeins útvaldir snillingar fái hugmyndir. Sannleikurinn er sá að allir geta fengið hugmyndir. Ef þig langar til að verða betri í því að fá hugmyndir þarftu að æfa þig í því að taka eftir umhverfinu í kringum þig og hugsunum þínum. Á hverjum degi fljúga ótrúlega margar hugsanir í gegnum huga manns. Þar leynast oft alls konar hugmyndir. Leiktu þér að því að búa til skrýtnar, óvenjulegar og tilgangslausar hugmyndir. Kjánalegustu hugmyndir geta orðið að einhverju geggjuðu.  

Til að verða góður hugmyndasmiður þarftu að hugsa um ferlið eins og sá sem er að æfa sig í að verða betri í fótbolta. Þú þarft einfaldlega að æfa þig til að verða betri. Gott ráð er að hafa alltaf litla minnisbók og blýant í töskunni eða vasanum og skrifa hugmyndirnar niður jafnóðum og þær birtast í huga þér.   

Stundum detta hugmyndir nefninlega niður í kollinn á manni þegar maður á síst von á þeim, eins og til dæmis þegar þú ert í strætó eða að ganga í skólann. Stundum koma þær rétt áður en þú ferð að sofa. En það er mikilvægt að muna að hugmyndir hverfa jafn fljótt og þær koma og því er mikilvægt að skrifa þær niður um leið og þær poppa upp í huga þér.